Mikil eyðilegging hefur orðið á landi leikarans Russel Crowe í Nýju Suður-Wales í Ástralíu. Miklir skógareldar hafa geisað í Ástralíu á síðustu vikum. Leikarinn sýndi frá eyðileggingunni á Twitter.
Crowe er frá Nýja-Sjálandi en hefur búið í Ástralíu stóran hluta af ævi sinni. Hann á um 400 hektara land í austurhluta Ástralíu. Miklir skógar eru á landareign hans og eru skógarnir illa leiknir eftir eldana.
Crowe sýndi myndband þar sem hann og félagar hans voru að reyna að komast um landið og meta ástandið. Fjöldi trjáa hafði fallið á slóðann en Crowe og félagar komust í gegn með því að saga trén með keðjusög.
„Eldurinn logar enn, það rýkur úr trjábútum alls staðar. Komumst hálfa leið þangað sem við vorum að reyna að komast, ætlum að reyna aftur á morgun þegar það er kaldara,“ skrifaði Crowe við myndband sem hann deildi á Twitter. Á myndböndunum sem Crowe hefur birt síðustu daga sjást áhrif eldanna vel.