Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir kynferðislega áreitni með því að hafa strokið konu utanklæða á baki og á innanverðu hægra læri í strætisvagni í apríl í fyrra.
Er maðurinn ákærður fyrir brot á 199. grein almennra hegningarlaga, en þar segir að hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skal sæta fangelsi allt að 2 árum. Kynferðisleg áreitni felst m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.
Konan fer auk þess fram á að maðurinn verði dæmdur til að greiða henni 650 þúsund krónur í miskabætur vegna atviksins.