Kosningar hafnar í Namibíu

Hage Geingob ræddi við fjölmiðlafólk eftir að hafa greitt atkvæði …
Hage Geingob ræddi við fjölmiðlafólk eftir að hafa greitt atkvæði í morgun. AFP

Kjörstaðir voru opnaðir klukkan 7 í morgun að staðartíma, klukkan 5 að íslenskum tíma, í Namibíu og er talið að stærsti flokkur landsins muni tapa miklu fylgi vegna þeirra upplýsinga sem koma fram um viðskipti Samherja í landinu og efnahagsþrenginga sem blasa við.

Bæði er um þing- og forsetakosningar að ræða en SWAPO-flokkurinn hef­ur verið við völd í land­inu síðan það fékk sjálf­stæði frá Suður-Afr­íku árið 1990.

Forseti landsins, Hage Geingob, sækist eftir endurkjöri og þegar hann greiddi atkvæði í morgun sagðist hann sannfærður um sigur en ef hann tapi þá muni hann sætta sig við það. „Ég er demókrati,“ sagði hann við fréttamenn sem fylgdust með honum á kjörstað.

„Þetta er ekki stríð, þetta er ekki heimsendir. Við erum aðeins að reyna á lýðræðisleg réttindi okkar,“ segir Geingob.

Helsti andstæðingur hans, tannlæknirinn fyrrverandi, Panduleni Itula, hefur aukið fylgi sitt jafnt og þétt að undanförnu, einkum meðal fólks sem er án atvinnu. Þrátt fyrir það er talið líklegt að Geingob hafi betur en ekki með 84% fylgi líkt og síðast. 

AFP-fréttastofan líkt margar aðrar alþjóðlegar fréttastofur tengja kosningarnar við skjölin „fish rot“ þar sem íslenskt fyrirtæki, Samherji, er sakað um að hafa greitt embættismönnum mútur gegn kvóta. 

Geingob neitar að hafa átt aðild að málinu og segir að þessu hafi vísvitandi verið dreift nú til þess að eyðileggja kosningabaráttu hans. 

Kjörstöðum verður lokað klukkan 21, klukkan 19 að íslenskum tíma. Alls eru kjörstaðirnir 4.200 talsins og er um rafræna talningu atkvæða að ræða. 

Frétt Washington Post

Frétt Xinhua

Frétt New York Times

Frétt Le Monde

mbl.is