Áform ríkisstjórnarinnar um afnám stimpilgjalds af skjölum varðandi eignayfirfærslu skipa getur ýtt undir félagslegt undirboð, segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, í samtali við 200 mílur.
Hann segir frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi til þess fallið að lækka kostnað útgerða við að flagga skip úr landi og þar með aftengja starfsemina frá kjarasamningum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.
„Til dæmis; þegar skipi er flaggað til Grænlands, þá geta undirmenn ekki fylgt með nema hafa verið með grænlenska kennitölu í tvö ár. Þannig að það segir sig sjálft að sjómennirnir fylgja ekki með. Fyrir utan það eru þeir ráðningasamningar sem eru í boði á Grænlandi á íslenskum skipum, sem er flaggað þangað, óboðlegir. Það er engin lágmarkstryggingavernd, það er ekki greitt í lífeyrissjóð og það er ekki greitt í stéttarfélag. Þannig að verndin fyrir mennina er nánast engin ef þeir fara með,“ útskýrir Valmundur.
Formaðurinn segir því ljóst að flestir þeirra sem starfa á skipum sem kunna að verða færð úr landi muni verða atvinnulausir. Þótt einhverjir kunni að komast með skipinu úr landi gæti það leitt til verulegrar skerðingar kjara að sögn Valmundar sem vísar meðal annars til þess að ráðningarsamningar á Grænlandi bjóði allt að helmingi minni laun en á Íslandi „miðað við þá samninga sem við höfum séð“.
Það að skráning myndi bera minni kostnað einfaldar skráningaflutninga að sögn Valmundar sem segir að slíkir flutningar geri það að verkum að sjómenn og fjölskyldur þeirra eru „látin hanga í lausu lofti“.
Spurður hvort stjórnvöld hafi brugðist við sjónarmiðum Sjómannasambandsins segir Valmundur svo ekki vera. „Það var á Samráðsgáttinni sem við fyrst skiluðum ítarlegri umsögn, síðan höfum við skilað umsögn um frumvarpið í gær eða fyrradag. Við höfum ekki verið boðaðir á fund nefndarinnar (efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis), en það kemur örugglega að því þegar málið verður tekið fyrir.“
Hann segir Sjómannasambandið leggjast alfarið gegn tillögu ríkisstjórnarinnar. „Við höfum séð hvernig er búið að fara með menn í þessu. Þetta gengur ekkert upp svona. Þetta [stimpilgjald] var sett á á sínum tíma […] fyrst og fremst til þess að sporna við því að svona [skráningaflutningur] gæti komið upp. Þetta var ekki bara sett á vegna þess að ríkissjóð vantaði pening.“
Bætir Valmundur við að Félag skipsstjórnarmanna og Félag vélstjóra og málmtæknimanna séu sammála Sjómannasambandi Íslands í málinu.