Aðeins um helmingur heildarafla makríls sem veiddist á vertíðinni af íslenskum skipum var úr íslenskri lögsögu. Þetta hlutfall var enn minna í tilfelli kolmunna, en aðeins 1,7% þess afla hefur komið úr lögsögu Íslands.
Heildarafli íslenskra skipa á makrílvertíðinni sem lauk nýverið var 128 þúsund tonn sem er minni en á vertíðinni í fyrra þegar veiddust 136 þúsund tonn, að því er fram kemur á vef Fiskistofu. Vekur athygli að aðeins um 66 þúsund tonn, eða 51,3% aflans, voru veidd í íslenskri lögsögu og 61,7 þúsund tonn á alþjóðlegu hafsvæði NEAFC og 609 tonn í lögsögu Færeyja.
Aflahæsta skipið á makrílveiðunum á vertíðinni er Víkingur AK-100 með 9.463 tonn. Næst kemur Huginn VE-55 með 9.311 tonn og Venus NS-150 með 9.127 tonn.
Fram kemur í frétt á vef Fiskistofu að heildarafli íslenskra skipa í norsk-íslenskri síld er 110 þúsund tonn það sem af er ári, en aflinn var 83 þúsund tonn á síðasta ári. Aflinn er að mestu fenginn í íslenskri lögsögu eða 81 þúsund tonn.
Aflahæsta skipið í veiðum á norsk-íslenskri síld á þessari vertíð er Venur NS 150 með 11.600 tonn. Næst er Margrét EA með 10 þúsund tonn.
Þá segir að það sem af er ári hafa íslensk skip veitt rúm 238 þúsund tonn af kolmunna, en á sama tíma í fyrra var aflinn „talsvert meiri, eða rúmlega 269 þúsund tonn.“ Kolmunnaafli á þessari vertíð er að mestu fenginn utan íslenskrar lögsögu, 132 þúsund tonn í lögsögu Færeyja og 102 þúsund tonn í annarri lögsögu. Aðeins um 4 þúsund tonn voru veidd í íslenskri lögsögu.
Aflahæsta skipið í kolmunnaveiðum á þessari vertíð er Víkingur AK-100 með 25.366 tonn. Næst kemur Venus NS-150 með 23.346 tonn.