Björgólfur: Erfiðara en Seðlabankamálið

Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.
Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja. mbl.is/​Hari

Björgólf­ur Jó­hanns­son, starf­andi for­stjóri Sam­herja, seg­ir að Sam­herja­málið svo­kallaða, sem hann kall­ar „víðtæka árás á fé­lagið“, hafi verið enn erfiðara viðfangs en Seðlabanka­málið. Þá seg­ir hann að fyr­ir­tækið reyni að bregðast við ásök­un­um á ábyrg­an hátt og að þær sem hafi verið sett­ar fram eigi að stór­um hluta ekki við rök að styðjast. Þetta er meðal þess sem kem­ur fram í pósti Björgólfs til starfs­manna Sam­herja.

Vís­ar Björgólf­ur til þess að Sam­herji hafi á dög­un­um sent frá sér yf­ir­lýs­ingu þess efn­is að fé­lagið Cape cod FS á Mars­halleyj­um væri ekki í eigu Sam­herja, en í um­fjöll­un Kveiks og Stund­ar­inn­ar kom fram að fé­lagið hefði verið notað til að yf­ir­færa meira en 70 millj­ón­ir banda­ríkja­doll­ara í gegn­um Cape Cod. Kveik­ur hef­ur áður sent frá sér yf­ir­lýs­ingu þess efn­is að aldrei hafi verið haldið fram í um­fjöll­un­inni að Sam­herji ætti Cape Cod, en að bank­inn DNB hafi reynd­ar talið svo vera, enda hafi starfsmaður Sam­herja verið prókúru­hafi og stofn­andi reikn­ings fé­lags­ins hjá bank­an­um.

Seg­ir Björgólf­ur í póst­in­um að þar sem Sam­herji hafi aldrei átt Cape Cod FS þýði það í reynd að eng­inn fót­ur sé fyr­ir ásök­un­um um pen­ingaþvætti sem sett­ar hafi verið fram. Seg­ir hann að lög­menn Sam­herja hafi fundað með bæði skatt­rann­sókn­ar­stjóra og héraðssak­sókn­ara og hafi af­hent embætt­un­um gögn um þetta. Þá hafi einnig lög­menn frá Wik­borg Rein fundað með héraðssak­sókn­ara og verið í sam­skipt­um við norsku efna­hags­brota­deild­ina Økokrim í Osló.

Ítrek­ar Björgólf­ur jafn­framt fyrri yf­ir­lýs­ingu fyr­ir­tæk­is­ins um að Jó­hann­es Stef­áns­son, upp­ljóstr­ari og fyrr­ver­andi starfsmaður Sam­herja, hafi hand­valið tölvu­pósta sem hafi verið birt­ir á vefsíðu Wiki­leaks. Aðeins hafi 42% af tölvu­póst­um sem voru í tölvu­póst­hólfi Jó­hann­es­ar á tíma­bil­inu 2014-2016 verið birt. „Það vek­ur ýms­ar spurn­ing­ar. Hvert var efni þeirra pósta sem ekki voru birt­ir? Hvers vegna voru þau tíma­bil sem um ræðir val­in en ekki allt tíma­bilið? Sú staðreynd að 58% af tölvu­póst­un­um voru aldrei birt hlýt­ur að vera um­hugs­un­ar­efni fyr­ir þá sem telja að frá­sögn Jó­hann­es­ar Stef­áns­son­ar sé rétt og sann­leik­an­um sam­kvæm,“ seg­ir Björgólf­ur í póst­in­um.

Björgólfur segir „víðtæka árás á félagið“ í Samherjamálinu svokallaða vera …
Björgólf­ur seg­ir „víðtæka árás á fé­lagið“ í Sam­herja­mál­inu svo­kallaða vera erfiðari viðfangs en í Seðlabanka­mál­inu.

Seg­ir Björgólf­ur að unnið sé að því að greina ásak­an­ir á hend­ur fé­lag­inu enda séu marg­ar þeirra mjög al­var­leg­ar. Hins veg­ar hafi aðeins verið sagt frá ann­arri hlið þeirra í fjöl­miðlum. „Það er erfitt fyr­ir fé­lagið og starfs­menn að sitja þegj­andi und­ir þessu. Þið getið treyst því að við mun­um svara öll­um þess­um ásök­un­um. Ég bið ykk­ur hins veg­ar um skiln­ing því þetta mun taka tíma,“ seg­ir hann við starfs­fólkið.

Und­ir lok pósts­ins þakk­ar hann starfs­fólk­inu fyr­ir fram­lag þess og seg­ir að sam­einað muni fé­lagið standa þetta af sér. „Þessi víðtæka árás á fé­lagið, sem staðið hef­ur yfir und­an­farn­ar vik­ur, hef­ur verið enn erfiðari viðfangs en sú sem við glímd­um við í Seðlabanka­mál­inu. Við vit­um hins veg­ar að sam­einuð mun­um við standa þetta af okk­ur. Ég vil að þið vitið að stjórn­end­ur Sam­herja eru óend­an­lega þakk­lát­ir fyr­ir ykk­ar fram­lag til fyr­ir­tæk­is­ins. Án ykk­ar væri fé­lagið ekki leiðandi í evr­ópsk­um sjáv­ar­út­vegi. Við ætl­um að gera allt sem við get­um til að tryggja að svo verði áfram.“

Bréfið má lesa í heild hér.

mbl.is