Skíðaferðir til útlanda eru einstaklega vinsælar á þessum árstíma. Fólk gerir þó margt annað en að skíða þegar það fer í skíðaferð. Niðurstöður könnunar sem gerð var í Bretlandi benda til þess að margir Bretar fá sér vel í aðra tána áður en þeir renna sér niður skíðabrekkurnar.
Á síðustu fimm árum hafa 3,8 milljónir manns tilkynnt að þeir hafi lent í slysi á skíðum eftir að þeir hafi drukkið áfengi.
Samkvæmt rannsókninni meiðast um þúsund Bretar á hverjum degi vegna þess að þeir voru undir áhrifum í skíðabrekkunni. Rannsóknin var gerð af tryggingafyrirtækinu Direct Line og tóku rúmlega 2.000 manns þátt í henni.
Þátttakendur prófuðu skíðahermi edrú og svo eftir að þeir höfuð innbyrt áfengi. Líkurnar á því að þátttakendur lentu í slysi jukust um 43 prósent eftir að þeir höfðu innbyrt um sex einingar af áfengum drykk. Áhættan jókst einnig umtalsvert eftir aðeins 3 einingar af áfengi, sem samsvarar einu stóru vínglasi.
Í spurningakönnun sem einnig var lögð fyrir kom í ljós að 5,3 milljónir manns viðurkenni að hafa skíðað undir áhrifum áfengis. Flestir segja að meiðslin sem þeir hlutu í kjölfarið hafi verið minni háttar, en 42 prósent sögðust þó ekki hafa getað farið aftur á skíði það sem eftir var af ferðinni.