Ríkisflugfélag Nýja-Sjálands, Air New Zealand, er að prófa sig áfram með ætilega kaffibolla um borð í vélum flugfélagsins. Tilgangurinn er að draga úr magni úrgangs sem til fellur meðan á flugi stendur, en alls hella flugþjónar félagsins kaffi í átta milljón bolla á ári hverju.
BBC fjallar um málið í dag og segir að bollarnir komi frá nýsjálensku fyrirtæki sem heitir Twiice. Þeir eru gerðir úr kexi með vanillubragði og leka ekki. Flugfélagið segir að bollarnir séu að slá í gegn hjá farþegum sem hafi fengið að prófa þá og þeir séu liður í þeirri vegferð flugfélagsins að leita nýrra leiða til að auka sjálfbærni rekstursins.
Bollarnir hafa þó fengið gagnrýni á samfélagsmiðlum, frá umhverfisverndarsinnum, sem segja að flugfélagið gæti gert meira en bara bjóða upp á ætilega kaffibolla til þess að minnka skaðleg áhrif sín á loftslagið.
„Hvað um að draga úr losun?“ ritar einn netverji. „Kannski bara aflýsa einu flugi til Lundúna í hverri viku,“ segir annar. Virðast þeir vera að benda á að útblástur flugsamgangna á loftslagið vegi þyngra en það hvort hægt sé að éta kaffibollann eða ekki.