Samþykktu frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns

Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar samþykktu á fundi stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar í gær að hefja frum­kvæðis­at­hug­un á því hvernig Kristján Þór Júlí­us­son sjáv­ar­út­vegs­ráðherra hygðist láta meta hæfi sitt vegna tengsla við út­gerðarfé­lagið Sam­herja og hvort til­efni hefðu verið til slíkr­ar at­hug­un­ar fyrr í ráðherratíð hans. RÚV greindi fyrst frá.

Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir, þingmaður Pírata og formaður nefnd­ar­inn­ar, Guðmund­ur Andri Thors­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, og Andrés Ingi Jóns­son, sem ný­verið gekk úr þing­flokki Vinstri grænna, samþykktu til­lög­una, en aðeins þarf þrjú at­kvæði til að samþykkja slíka til­lögu.

Er Kristján tók við embætti árið 2017 lýsti hann því yfir að hann myndi láta meta hæfi sitt ef upp kæmu mál sem snertu Sam­herja sér­stak­lega, en Kristján var stjórn­ar­formaður fé­lags­ins til árs­ins 1998, auk þess að vera æsku­vin­ur Þor­steins Más Bald­vins­son­ar, sem ný­lega lét af störf­um sem for­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins, í það minnsta tíma­bundið.

Í umræðum á Alþingi í síðasta mánuði spurði Hall­dóra Mo­gensen, þingmaður Pírata, Kristján að því hve oft hann hefði látið meta hæfi sitt vegna mála sem vörðuðu Sam­herja, frá því hann tók við embætti. Var svar ráðherra á þá leið að aldrei hefði komið til þess.

mbl.is