Draga mörkin við appelsínugula viðvörun

Þrátt fyrir snjóinn verða rafmagnshlaupahjól Hopps í notkun meðan veðrið …
Þrátt fyrir snjóinn verða rafmagnshlaupahjól Hopps í notkun meðan veðrið verður ekki arfavitlaust. Ljósmynd/Aðsend

Tveimur fyrirtækjum sem bjóða upp á almenningsleigu á hlaupahjólum skaut upp kollinum hér á landi í haust. Getur þá hver sem er tekið næsta hjól á leigu og skilið það eftir þar sem ferðinni lýkur. Hins vegar er ljóst að íslenskt vetrarveður getur verið ansi krefjandi fyrir rekstur sem þennan og þrátt fyrir nokkuð milt haust stefnir nú í versta veður vetrarins. mbl.is lék forvitni á að vita hvernig leigurnar tvær bregðast við þegar veðrið fer að setja strik í reikninginn.

Hjá leigunni Zolo er nokkuð einföld stefna og segir Adam Karl Helgason, framkvæmdastjóri Zolo, að um leið og sé kominn snjór eða frost taki félagið öll hjólin inn af öryggisástæðum. Þannig hafi öll hjól fyrirtækisins verið inni síðustu vikuna vegna frosts.

Hjá Hoppi var hins vegar brugðið á það ráð að setja nagladekk undir hluta flotans, en Eyþór Máni Steinarsson, rekstrarstjóri Hopps, segir við mbl.is að markmiðið sé að þjónustan sé alltaf aðgengileg þegar starfsfólkið telji öryggi ekki ógnað. Þannig hafi aðeins negld hjól verið úti undanfarna daga. Hann segir að fyrirtækið muni fylgjast vel með veðurspánni næstu sólarhringa, en Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir stóran hluta landsins, meðal annars frá því eftir hádegi á morgun og fram á fimmtudagsmorgun.

Þessi lét veðrið í morgun ekki á sig fá og …
Þessi lét veðrið í morgun ekki á sig fá og fór ferða sinna á leiguhlaupahjóli. mbl.is/Arnar Þór

Eyþór segir að Hopp dragi mörkin þar sem öryggi sé ógnað og appelsínugul viðvörun raungerist. Hann segir að staðan verði tekin klukkan átta í kvöld þegar starfsmenn fyrirtækisins fari og sæki hjól, en þá er alla jafna rafmagnslitlum hjólum safnað saman. Ef veðurspáin hafi ekki breyst segir hann að skipunin verði að taka öll hjól inn. Klukkan fimm á morgun verði svo staðan aftur tekin áður en farið verði með hjól út. Ef appelsínugul viðvörun verður enn segir hann ljóst að engin hjól verði sett út á morgun.

Segir Eyþór að hann hafi litlar áhyggjur af því að hjólin fjúki út í veður og vind. Hins vegar gætu þau fokið á hliðina, en fyrirtækið vilji ekki að þau séu þannig á víð og dreif og þá sé slæmt veður ekki síður öryggisatriði fyrir starfsmenn fyrirtækisins.

mbl.is