Ofsaveðrið á morgun hefur áhrif á Strætó

mbl.is/Arnar Þór

Búast má við ofsaveðri eftir hádegi á morgun, þriðjudaginn 10. desember, og appelsínugular og gular viðvarnir verða í gildi um allt land.

Gera má ráð fyrir því að flestar strætóferðir á landsbyggðinni falli niður eftir hádegi á þriðjudag og gætu orðið óvirkar fram á miðvikudaginn 11. desember. Farþegum sem ferðast daglega með Strætó á landsbyggðinni er sérstaklega bent á að fylgjast með fréttum og skipuleggja ferðir sínar til og frá vinnu samkvæmt veðurspá, að því er Strætó greinir frá í tilkynningu. 

Strætó á höfuðborgarsvæðinu

Líkur eru á að veðrið hægi á umferð og farþegar Strætó á höfuðborgarsvæðinu geta búist við seinkunum á morgun. Við mælum með að farþegar fylgist með staðsetningu vagna í Strætó-appinu eða á heimasíðu Strætó áður en haldið er út á biðstöð.

Tvísýnt gæti orðið með nokkrar leiðir Strætó innan höfuðborgarsvæðisins, eins og leið 15 sem ekur Vesturlandsveg milli Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Stjórnstöð Strætó fylgist náið með stöðunni og tilkynnir um frávik sem kunna að verða á akstri.

Hægt er að nálgast tilkynningar undir „gjallarhorninu“ á heimasíðu Strætó eða inn á Twitter síðu Strætó: https://twitter.com/straetobs

mbl.is