Eignarhald Hjálmars og Guðmundar aðskilið

Fjárhagsleg tengsl bræðranna Hjálmars og Guðmundar Kristjánssona hafa verið rofin …
Fjárhagsleg tengsl bræðranna Hjálmars og Guðmundar Kristjánssona hafa verið rofin og eignarhald þeirra í Brimi aðskilið. mbl.is/Hari

Sam­hliða því að KG Fisk­verk­un, í eigu Hjálm­ars Kristjáns­son­ar, keypti 46,6 millj­ón­ir hluta í Brimi af Guðmundi Kristjáns­syni, for­stjóra Brims, á 1,77 millj­arða króna, keypti Útgerðarfé­lag Reykja­vík­ur (ÚR) alla hluti í eigu KG Fisk­verk­un­ar í eign­ar­halds­fé­lag­inu Kristján Guðmunds­son ehf. sem á um 37% hlut í ÚR.

Með viðskipt­un­um hafa fjár­hags­leg tengsl bræðranna Hjálm­ars og Guðmund­ar verið rof­in og eign­ar­hald þeirra í Brimi aðskilið, að því er seg­ir í frétta­til­kynn­ingu frá ÚR. Þá mun Hjálm­ar ekki hafa neina eign­araðild að ÚR og mun hverfa frá öll­um stjórn­un­ar­störf­um í fé­lag­inu.

„Í fram­haldi af til­kynn­ingu til kaup­hall­ar í fyr­ir fá­ein­um dög­um um viðskipti Útgerðarfé­lags Reykja­vík­ur hf. (ÚR) og KG fisk­verk­un­ar ehf. á Rifi með hluta­bréf í Brimi hf. er ástæða til að greina frá að ÚR keypti jafn­framt 33,3% hlut KG fisk­verk­un­ar í eign­ar­halds­fé­lag­inu Kristján Guðmunds­son ehf. sem á um 37% hlut í ÚR,“ seg­ir í til­kynn­ingu ÚR.

„Eft­ir þessi viðskipti á Hjálm­ar Kristjáns­son enga eign­araðild að ÚR og hverf­ur frá öll­um stjórn­un­ar­störf­um í fé­lag­inu. Þar með eru rof­in fjár­hags­leg tengsl á milli bræðranna Guðmund­ar og Hjálm­ars Kristjáns­sona. Eign­ar­hald fé­laga þeirra bræðra á hluta­fé í Brimi hf. er aðskilið. ÚR og tengd fé­lög fara nú með um 46,26% af heild­ar­hluta­fé í Brimi.“

Hlut­hafa­fund­ur í Brimi verður hald­inn á fimmtu­dag 12. des­em­ber.

mbl.is