Greiði maður mútur hljóti einhvers að vera vænst aukalega

Björgólfur Jóhannsson segist í samtali við Dagens Næringsliv í dag …
Björgólfur Jóhannsson segist í samtali við Dagens Næringsliv í dag efast um að nokkrar mútugreiðslur hafi átt sér stað í tengslum við starfsemi Samherja í Namibíu, nú sé unnið í því að komast til botns í málinu og líklega verði hlutverki hans í forstjórastólnum lokið á útmánuðum 2020. mbl.is/​Hari

„Ísland upp­sker sjald­an at­hygli á alþjóðavett­vangi. Pen­ingaþvætt­is­mál hausts­ins, svo ekki sé minnst á aðkomu DNB-bank­ans að því, sýn­ir hvort tveggja Sam­herja og stærsta banka Nor­egs í slæmu ljósi.“ Á þess­um orðum hefst viðtal norska viðskipta­dag­blaðsins Dagens Nær­ingsliv við Björgólf Jó­hanns­son, for­stjóra Sam­herja, sem blaðið birt­ir í dag.

„Ég ef­ast um að nokkr­ar mútu­greiðslur hafi átt sér stað eða að fyr­ir­tækið sé eða hafi verið flækt í nokkuð ólög­mætt,“ hef­ur blaðið eft­ir Björgólfi sem seg­ist telja að upp­ljóstr­ar­inn Jó­hann­es Stef­áns­son hafi verið einn að verki. DN vitn­ar því næst í bréf sem Björgólf­ur sendi öllu starfs­fólki Sam­herja í síðustu viku, þar sem hann gagn­rýn­ir þá aðferðafræði Jó­hann­es­ar að velja úr tæp­lega helm­ing tölvu­póst­sam­skipta sinna við aðra starfs­menn fyr­ir­tæk­is­ins um viðskipti Sam­herja í Namib­íu og birta á Wiki­leaks.

„Aug­ljóst er að aðeins vald­ir tölvu­póst­ar eru birt­ir á Wiki­leaks,“ hef­ur DN eft­ir Björgólfi, „við velt­um því til dæm­is fyr­ir okk­ur hvers vegna ekk­ert er birt frá ár­inu 2015.“ DN ræddi einnig við Jó­hann­es Stef­áns­son sem seg­ir frek­ari tölvu­póst­birt­ing­ar vænt­an­leg­ar, hann hafi í fyrstu lotu aðeins valið það sem hon­um hafi þótt mik­il­væg­ast að kæmi fram fyrst.

Ein­hvers staðar maðkur í mys­unni

„Aðgerðirn­ar í Namib­íu voru dá­lítið „messy“. Stjórni maður fyr­ir­tæki og er sagt upp geta ástæðurn­ar fyr­ir því ekki verið marg­ar. Ein­hvers staðar var maðkur í mys­unni og eitt­hvað fór greini­lega úr­skeiðis,“ seg­ir Björgólf­ur og vís­ar til þess þegar Jó­hann­esi var sagt upp störf­um sem stjórn­anda Namib­íu­fé­laga Sam­herja árið 2016.

Blaðamaður DN spyr Björgólf því næst út í greiðslur til eign­ar­halds­fé­lags í Dubaí í eigu James Hatuikulipi, fyrr­ver­andi stjórn­ar­for­manns namib­ísku rík­is­út­gerðar­inn­ar Fis­hcor, sem haldið hafi áfram allt fram á þetta ár, þrátt fyr­ir að Jó­hann­es væri þá löngu hætt­ur störf­um.

Björgólf­ur seg­ir ekk­ert benda til þess að þær greiðslur hafi verið ólög­leg­ar, þar hafi ein­fald­lega getað verið um lög­leg­ar greiðslur fyr­ir fiskikvóta að ræða auk greiðslna fyr­ir ráðgjafaþjón­ustu. „Þetta voru kvót­ar frá yf­ir­völd­um sem við skul­um vona að hafi verið lög­um sam­kvæmt, Sam­herji fékk enga kvóta um­fram það,“ svar­ar hann spurn­ingu blaðamanns um lög­mæti greiðsln­anna til fé­lags Hatuikulip­is.

„Þekki ekki bak­grunn starf­sem­inn­ar í Afr­íku“

„Er það vani ykk­ar [Sam­herja] að greiða einkaaðilum þegar þið fáið út­hlutað kvóta er­lend­is?“ spyr blaðamaður þá. „Því get ég ekki svarað, málið sæt­ir nú rann­sókn. Ber­ist manni reikn­ing­ur fyr­ir þjón­ustu eða kvóta þá greiðir maður hann,“ svar­ar Björgólf­ur og vís­ar því á bug að nokkr­ar ólög­mæt­ar greiðslur hafi átt sér stað. „Okk­ur bár­ust reikn­ing­ar frá fyr­ir­tækj­um sem seldu kvóta og við greidd­um þá.“

DN fer þá yfir rann­sókn norsku lög­manns­stof­unn­ar Wi­borg Rein auk rann­sókn­ar efn­hags­brota­deild­ar norsku lög­regl­unn­ar, Økokrim, og yf­ir­valda á Íslandi. Um­svif Sam­herja í Namib­íu hafi numið um 50 millj­ón­um Banda­ríkja­dala á ári síðustu ár. „Hafið þið tekið þessi viðskipti fyr­ir­tæk­is­ins til ít­ar­legr­ar skoðunar?“ spyr blaðamaður.

„Því get ég ekki svarað af ör­yggi, ein­fald­lega vegna þess að ég þekki ekki bak­grunn starf­sem­inn­ar í Afr­íku, þetta er ann­ar heim­ur. Ég þyk­ist þess hins veg­ar full­viss að við höf­um fengið kvóta eft­ir lög­leg­um leiðum í öll­um lönd­um,“ seg­ir Björgólf­ur við DN og bæt­ir því við að greiði maður mút­ur hljóti þess að vera vænst að fá eitt­hvað auka­lega í staðinn. „Og Sam­herji fékk kvóta,“ skýt­ur blaðamaður inn í. „En fyr­ir þá var greitt sama verð og önn­ur fyr­ir­tæki greiddu,“ svar­ar Björgólf­ur.

Bank­inn graf­ist fyr­ir um lög­mæti

Talið berst nú að greiðslum sem fóru um reikn­inga fyr­ir­tæk­is­ins Cape Cod Fs á Mars­hall-eyj­um hjá DNB-bank­an­um, reikn­inga sem bank­inn hafi svo lokað, og svar­ar Björgólf­ur því til að þar hafi verið um launa­greiðslur til sjó­manna að ræða. „Hefði DNB átt að kanna það bet­ur til hverra greiðslur gegn­um fé­lög Sam­herja á Kýp­ur fóru?“ spyr blaðamaður þá.

„Það er vafa­mál hvað þeir [bank­inn] hefðu þá átt að upp­götva. Þegar um náin viðskipta­tengsl er að ræða geng­ur maður út frá því að bank­inn geri allt sem í hans valdi stend­ur til að graf­ast fyr­ir um lög­mæti pen­inga og upp­runa þeirra. Hvor tveggja fyr­ir­tæk­in, DNB og Sam­herji, eru meðvituð um al­vöru máls­ins enda er málið nú rann­sakað af hálfu beggja,“ seg­ir Björgólf­ur.

Blaðamaður vill þá vita hvort Björgólf­ur telji að bank­inn hefði átt að stöðva greiðslur til fé­lags Hatuikulip­is í Dubaí, vit­andi af póli­tísk­um tengsl­um eig­anda þess (n. politisk ek­sponert per­son) og svar­ar Björgólf­ur því til að áður en slíkt sé gert þurfi að liggja fyr­ir hvort greiðslurn­ar séu í raun ólög­mæt­ar. „Nú er eig­andi þess­ara reikn­inga í fang­elsi,“ seg­ir blaðamaður.

„Já, hann er bor­inn sök­um en hef­ur ekki hlotið dóm,“ bend­ir Björgólf­ur á, „við höf­um lagt fram öll þau skjöl sem DNB hef­ur beðið um. Nú ætl­um við okk­ur að draga fram í dags­ljósið hvað það var sem átti sér stað og svo munu til þess bær yf­ir­völd vega og meta af­leiðing­ar þess. Ég hugsa að mínu hlut­verki þarna verði lokið á fyrsta fjórðungi nýs árs,“ lýk­ur hann máli sínu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina