Sexmenningarnir sem kærðir hafa verið fyrir spillingu og peningaþvætti í tengslum við Samherjaskjölin krefjast þess að verða látnir lausir úr varðhaldi og segja handtökurnar ólöglegar.
Þetta kemur fram á vef The Namibian.
Þar segir enn fremur að mennirnir hafi verið beittir harðræði af starfsmönnum namibísku spillingarlögreglunnar.
Sexmenningarnir Bernhard Esau og Sacky Shanghala, fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn landsins, James og Tawson „Fitty“ Hatuikulipi, auk þeirra Ricardo Gustavo og Pius Mwatelulo voru í byrjun mánaðar úrskurðaðir í varðhald til 20. febrúar á meðan rannsókn málsins fer fram.
Mennirnir krefjast þess að dómurinn taki afstöðu til þess að yfirmaður spillingarlögreglu hafi vísað máli þeirra til embættis ríkissaksóknara. Einnig spyrja þeir hvað búi að baki ákvörðun dómara að hafa þá í haldi til 20. febrúar.
Esau segir að starfsmenn spillingarlögreglunnar hafi þvingað hann, Shanghala og Hatuikulipi inn í lögreglubifreið síðasta fimmtudag þar sem þeim var ekið á sveitabæi vegna húsleitar.
Esau segist hafa veikst í bílferðinni og hinir tveir þjáist af bakverkjum eftir bílferð um slæma sveitavegi.