Sökin ekki hjá landeigendum og náttúruverndarfólki

Frá viðgerðum á Dalvíkurlínu fyrir helgi.
Frá viðgerðum á Dalvíkurlínu fyrir helgi. mbl.is/Eggert

Stjórn Landverndar vísar því á bug að ástandið sem skapaðist á dögunum vegna rafmagnsleysis í kjölfar óveðursins sem gekk yfir landið sé sök landeigenda og náttúruverndarfólks. Þetta segir í yfirlýsingu frá stjórninni, sem birt var á vef samtakanna í dag. 

„Fáeinir stjórnmálamenn hafa í fljótfærni tekið undir þennan málflutning og kalla eftir aðgerðum sem auðvelda fyrirtækjum að ráðast í umdeildar framkvæmdir. Þessi upphlaup eru óheppileg svo vægt sé til orða tekið,“ segir enn fremur.

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Landsverndar segir að svo virðist sem stjórnendur helstu orkufyrirtækja landsins telji landeigendur og náttúruverndarfólk bera ábyrgðina. Kallar stjórnin eftir því að raflínur verði lagðar í jörð í auknum mæli og veikustu hlekkirnir í raforkukerfinu greindir.

Samtökin hafi aðeins gert athugasemdir við raflínulagnir vegna lína fyrir stóriðju og þegar mikil náttúruverðmæti hafi verið í húfi ef loftlína yrði reist. Minnt er enn fremur á að 80% af raforkuframleiðslu á Íslandi fari til stóriðju eða í bitcoin-gröft.

Enn fremur kemur fram í yfirlýsingunni að hætta á ofsaveðri fari vaxandi vegna loftslagsbreytinga og styrkja þurfi flutning á rafmagni til almennrar notkunar. Þá er hvatt er til þess að ástæður fyrir rafmagnsleysinu verði grandskoðaðar.

mbl.is