Reykjanesvirkjun tekin úr rekstri tímabundið vegna seltu

Ekki er von á straumleysi hjá almennum notendum á svæðinu.
Ekki er von á straumleysi hjá almennum notendum á svæðinu.

Báðar vélar Reykjanesvirkjunar verða teknar úr rekstri á meðan tengivirki Landsnet verður hreinsað af seltu og verður Rauðamelslína á milli Rauðamels og Reykjanesvirkjunar tekin úr rekstri á meðan.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti, en þar segir að ekki sé von á straumleysi hjá almennum notendum á svæðinu.

Starfsfólk Landsnets er enn tiltækt á svæðinu við tengivirkið í Hrútatungu vegna tíðra útslátta á virkinu undanfarið, en í fyrrinótt vann 25 manna hópur frá Landsneti og Rafal að því að þrífa einangrara virkisins í Hrútatungu frá miðnætti til klukkan 4.

Eftir það voru enn erfiðleikar við að halda á spennu á virkinu en það tókst að lokum og hefur það verið í rekstri síðan um klukkan 6 í gærmorgun.

mbl.is