Lengdartakmarkanir jarðstrengja verulegar

Stofnkostnaður við jarðstrengi er margfaldur á við loftlínur en rekstrarkostnaður …
Stofnkostnaður við jarðstrengi er margfaldur á við loftlínur en rekstrarkostnaður meiri af loftlínum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Jarðstrengir gætu breytt raffræðilegum eiginleikum raforkukerfisins í heild sinni og aukið hættu á of hárri mögnun yfirtóna og þar með of mikillar björgunar á spennu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um jarðstrengi í flutningskerfi raforku á hæstu spennustigum. 

Í kjölfar ofsaveðursins sem gekk yfir landið í síðustu viku hefur umræðan um mikilvægi þess að efla flutningskerfi raforku í landinu verið áberandi í samfélaginu. Afar slæmt ástand kom upp á fjölmörgum stöðum á landsbyggðinni í ofsaveðrinu og innviðir lömuðust. Dæmi eru um það að svæði á Norðurlandi vestra hafi verið algjörlega sambandslaus við umheiminn í allt að þrjátíu klukkustundir á meðan óveðrið gekk yfir. Þá hefur einnig verið á það minnst að jarðstrengir þola almennt betur álag af völdum óveðurs en loftlínur. 

Skýrsla atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um jarðstrengi kemur í kjölfar þingsályktunartillögu frá því í júní 2018, en í tillögunni kemur fram að sérfróður aðili skuli fenginn til að gera sjálfstæða rannsókn á áhrifum mismunandi tæknilegra lausna við lagningu raflína. 

Kerfisstyrkingin sjálf sem skiptir mestu 

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að séu takmarkanir á flutningsgetu raforkukerfisins til ákveðinna svæða fyrir hendi, skiptir engu máli hvort notast er við jarðstrengi eða loftlínur við styrkingu flutningskerfisins hvað varðar þróun og uppbyggingu iðnaðar og atvinnustarfssemi. Það sé kerfisstyrkingin sjálf sem væri meginforsenda þess að slík þróun gæti átt sér stað. 

Hvað varðar varðar ferðamennsku og möguleg neikvæð áhrif loftlína á ásýnd náttúru, segir í skýrslunni að hinar miklu lengdatakmarkanir jarðstrengja leiða af sér að takmörkuðu máli skiptir hvort styrking flutningskerfisins fari fram með loftlínum eingöngu, eða hvort nýttir séu jarðstrengskaflar við slíka styrkingu. Þar sem að jafnaði er aðeins hæft að leggja um 5% nýrra flutningslína í jörðu, er ekki hægt að notast við jarðstrengi til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif nýrra 220 kílóvatta flutningslína á ásýnd náttúru. 

Aðeins lágt hlutfall gæti farið í jörðu

Þá segir einnig að af þeim rúmlega 1.000 kílómetrum af 132 kílóvolt loftlínum sem skoðaðar voru, benda niðurstöður til þess að aðeins mætti koma um 10% í jörðu, sé tekið tillit til þeirra neikvæðu samlegðaráhrifa sem jarðstrengskafli á einum stað innan kerfisins hefur á hámarkslengdir jarðstrengskafla annarra innan annarra flutningslína. 

„Hámarkslengdir mögulegra jarðstrengskafla eru mismunandi eftir staðsetningu innan flutningskerfisins. Lengstu köflunum er hægt að koma fyrir þar sem raffræðilegur styrkur kerfisins er mestur (í nánd við suðvesturhornið og Fljótsdal), á meðan einungis er mögulegt að koma mjög lágu hlutfalli 132kV lína á Norðurlandi og Vestfjörðum í jörðu,“ segir í skýrslunni. 

Þá var framkvæmd greining á hversu háu hlutfalli nýrra 220 kílóvolta lína, sem lagðar væru til styrkingar íslenska flutningskerfisins, mætti koma í jörðu. 

„Niðurstöður greiningar á einni sviðsmyndanna, þar sem 220kV hringtenging var skoðuð, gáfu til kynna að ekki væri mögulegt að koma hærra hlutfalli en um 5% af heildarlengd nýrra lína í jörðu. Einnig kom í ljós að hámarkslengdir strengkafla innan 132kV línanna myndu aukast mjög mikið í nánd við hinar nýju 220kV línur,“ segir í skýrslunni.

Skýrsla ráðuneytisins um jarðstrengi er nú í umsagnarferli á samráðsgátt stjórnvalda, en hana má finna hér. 

mbl.is