Flugdólgur bundinn niður í Rússlandi

Maðurinn var bundinn niður með límbandi.
Maðurinn var bundinn niður með límbandi. Ljósmynd/Rússneska innanríkisráðuneytið

Drukkinn flugfarþegi í Rússlandi olli miklum usla um borð þegar hann reyndi að komast inn í flugstjórnarklefann. Flugþjónar um borð bundu manninn við sæti sitt til að hafa stjórn á honum.

Hinn ónafngreindi maður var á leið frá Mineralny Vody til Novosibirsk í Rússlandi þegar hann byrjaði að ógna öðrum farþegum og starfsfólki um borð. Í kjölfarið reyndi hann að komast inn í flugstjórnarklefann. Samkvæmt innanríkisráðuneyti Rússlands þurfti áhöfnin að binda hann niður til þess að forðast alvarlegri afleiðingar. 

Áhöfnin óskaði eftir að lögreglan tæki á móti manninum við komu í Novosibirsk. Hann var handtekinn á staðnum og ákærður fyrir að valda usla á almannafæri. Samkvæmt heimildum The Independent hélt hann ólátunum áfram þegar hann var kominn í hendur lögreglu.

mbl.is