Veikleikar í mikilvægum öryggisinnviðum

Í ályktun Byggðastofnunar segir að það sé með öllu óásættanlegt …
Í ályktun Byggðastofnunar segir að það sé með öllu óásættanlegt að stór hluti íbúa á landsbyggðinni búi við mikið óöryggi hvað varðar flutning raforku og fjarskipti, líkt og sannaðist í óveðrinu í síðustu viku. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er með öllu óásættanlegt að stór hluti íbúa á landsbyggðinni búi við mikið óöryggi hvað varðar flutning raforku og fjarskipti og ógnar búsetuskilyrðum víða um land. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ályktun stjórnar Byggðastofnunar sem fundaði í gær. 

Í ályktuninni segir að atburðir síðustu daga, þegar stórir hlutar landsins voru án rafmagns og fjarskipta, sýna að miklir veikleikar eru í mikilvægum öryggisinnviðum landsins. 

Rafmagnslaust hefur verið á stórum hluta Norður- og Norðvesturlands frá því að ofsaveður gekk yfir landið fyrir viku síðan. Í gærkvöldi bárust þær upplýsingar frá RARIK að loks hefði tekist að koma rafmagni á alla staði á landinu, þó áfram megi búast við truflunum. 

Vísað er í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018–2024, þar sem þeirri framtíðarsýn er lýst að Ísland verði í fararbroddi með nútímainnviði, framsækna þjónustu, verðmætasköpun, jöfn lífsgæði og öflug sveitarfélög sem geti annast staðbundin verkefni og veitt íbúum hagkvæma og góða þjónustu með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. 

„Öryggi í raforkuflutningum og fjarskiptum er ein grunnforsenda til að þessu markmiði verði náð og flutnings- og dreifikerfi raforku þarf að mæta þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu hvað varðar flutningsgetu og öryggi við afhendingu,“ segir í ályktuninni. 

Stjórn Byggðastofnunar hvetur ríkisstjórn Íslands, Alþingi, Landsnet og veitufyrirtæki til að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt og gera áætlun um úrbætur og viðbrögð til að skapa öryggi um þessa mikilvægu grunnþætti byggðar og búsetu.

mbl.is