Komu í veg fyrir stórtjón

Drangey og Málmey, ísfisktogarar FISK Seafood við bryggjuna á Sauðárkróki.
Drangey og Málmey, ísfisktogarar FISK Seafood við bryggjuna á Sauðárkróki. mbl.is/Björn Jóhann

Viðbragðsaðilum, starfs­mönn­um Skaga­fjarðar­hafna og áhöfn­um tog­ara FISK Sea­food, Málmeyj­ar og Drang­eyj­ar, tókst að koma í veg fyr­ir stór­tjón á skip­um, mann­virkj­um og fólki þegar óveðrið gekk yfir landið dag­ana 10. og 11. des­em­ber.

Tog­vír­ar og of­ur­tóg á Drang­ey slitnuðu ásamt því að einn bryggjupolli gaf sig. Auk þess slitnaði upp úr bryggjukant­in­um.

Hluti áhafn­ar skip­anna ásamt björg­un­ar­sveit unnu að því að tryggja land­fest­ar og var sól­ar­hrings­vakt á höfn­inni á meðan veðrið gekk yfir, að því er seg­ir í fund­ar­gerð um­hverf­is- og sam­göngu­nefnd­ar Skaga­fjarðar.

Sjór flæddi inn 

Há sjáv­ar­staða, áhlaðandi og mik­il öldu­hæð varð til þess að mik­ill sjór gekk á land við Skarðseyri og var Eyr­in um­flot­in frá hring­torgi og suður fyr­ir FISK Sea­food og flæddi meðal ann­ars inn í hús­næði slát­ur­húss­ins og FISK Sea­food. Grjót­g­arður við Skarðseyri skemmd­ist tölu­vert og barst mikið af möl, grjóti og þara inn yfir hana.

Í Hofsós­höfn sökk bát­ur sök­um ís­ing­ar og sjó­lags en ekki varð telj­andi tjón á smærri bát­um á Sauðár­króki.

Úrbóta er þörf á hafn­ar­svæðinu vegna óveðurs­ins, m.a. á nú­ver­andi hafn­arkanti og frek­ari land­vinn­inga á Eyr­inni. Höfn­ina vant­ar sár­lega drátt­ar­bát sem eyk­ur ör­yggi í aðstæðum sem þess­um og auðveld­ar alla vinnu við mót­töku og brott­för stærri skipa, að því er kem­ur fram í fund­ar­gerðinni.

mbl.is