Víða er fjölda hrossa enn saknað

Grafið úr fönn. Nokkuð var um að hesta fennti. Björgunarsveitir …
Grafið úr fönn. Nokkuð var um að hesta fennti. Björgunarsveitir SL lögðu sig fram um að leita að og grafa upp hross. Ljósmynd/Landsbjörg

Hrossum sem vitað er að drápust í ofsaveðrinu í síðustu viku hafði ekki fjölgað í gær, að sögn Sigríðar Björnsdóttur, dýralæknis hrossasjúkdóma. Áætlað hafði verði að 60-80 hross hefðu drepist. Víða var saknað hrossa og hafði eitthvað af þeim komið í ljós.

Bændur og hestaeigendur hafa leitað að hrossunum og eins björgunarsveitir. Svo virðist sem hross í Húnavatnssýslum hafi farið verst út úr ofsaveðrinu. Sigríður sagði að hringt hafi verið á bæi til að afla gagna og verður beðið með að gefa út tölur þar til niðurstöður liggja fyrir.

Þrennt sem spilaði saman

„Það var margt sérstakt við þetta veður sem kom hrossum illa. Einkum hvað hríðin var blaut og stóð lengi. Það var meiri bloti í þessu en oft er. Veðurhæðin var líka ofboðsleg, styrkurinn jafnaðist á við fellibyl á köflum. Þetta fór allt saman og yfir strikið á ákveðnum svæðum í Húnavatnssýslunum. Okkar harðgerasta dýr varð undan að láta. Því eigum við ekki að venjast. Ég man ekki eftir svona felli undanfarna áratugi,“ sagði Sigríður. Hún sagði að 1995 hafi fallið hross á fáum bæjum í Húnavatnssýslum en nú fóru fá hross á tiltölulega mörgum bæjum.

Eitthvað var um að hross sem leituðu vars fennti í kaf. Það gerðist jafnvel á stöðum sem menn hafa stólað á sem skjól fyrir hestana. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sigríður alltaf hættu á að það gerist því snjórinn safnist saman þar sem er skjól. Blaut hríðin festist í feldi hrossanna nú og fraus. Við þetta urðu hrossin mjög þung og gat þunginn sligað þau. Hross hröktust einnig undan veðurofsanum og lentu sum í skurðum eða girðingum, hættum sem þau vara sig venjulega á.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: