Sambandið við Dalvík kostaði sitt

Rafmagninu stýrt úr brúnni. Stjórnborðsvélin framleiðir 754 kW.
Rafmagninu stýrt úr brúnni. Stjórnborðsvélin framleiðir 754 kW. Ljósmynd/Ásgrímur L. Ásgrímsson

„Það er ekki sjálfgefið að skip geti gert þetta. Rafmagnstöflur og annað þurfa að vera upp settar til að þetta sé mögulegt auk þess sem ýmislegt bryggjumegin þarf að vera til staðar,“ segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Varðskipið Þór fékk óvænt hlutverk í kjölfar óveðursins í síðustu viku þegar skipið þurfti að sinna hlutverki rafstöðvar á Dalvík. Þór var aftengdur klukkan 21.30 á miðvikudagskvöld og hafði þá veitt Dalvíkingum rafmagn síðan klukkan tvö aðfaranótt síðasta föstudags, alls tæpar 140 klukkustundir.

Umtalsverður olíukostnaður hlaust af þessu. Aðspurður segir Ásgrímur að eigin olíunotkun skipsins meðan það lá við bryggju hafi numið um 70 lítrum á klukkustund. Hins vegar hafi farið á bilinu 200-250 lítrar á klukkustund að meðaltali í það að sjá bænum fyrir raforku.

Ef miðað er við að meðaltalsolíunotkun hafi verið 225 lítrar á klukkustund og klukkustundirnar alls 139,5 kemur í ljós að hver klukkustund kostaði um 35.600 krónur. Miðað er við að lítraverð skipagasolíu með vsk. sé 158,2 krónur samkvæmt verðskrá Skeljungs í desember. Alls nam því olíukostnaðurinn rétt tæpum fimm milljónum króna auk 1,5 í olíukostnað skipsins sjálfs, að því er fram kemur í  umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: