Vilja banna tilteknar einnota plastvörur

Alíslenskur grámávur flýgur hér keikur með plast í gogginum. Ef …
Alíslenskur grámávur flýgur hér keikur með plast í gogginum. Ef frumvarpið fær fram að ganga mun hann líklega sjá minna plast í framtíðinni. Morgunblaðið/Bogi Þór Arason

Drög að frum­varpi sem miðar að því að banna að til­tekn­ar, al­geng­ar einnota vör­ur úr plasti verði sett­ar á markað er nú komið inn á sam­ráðsgátt stjórn­valda. Frum­varp­inu er ætlað að breyta lög­um um holl­ustu­hætti og meng­un­ar­varn­ir. 

„Meðal vara sem bannað verður að setja á markað eru einnota bóm­ullarp­inn­ar úr plasti, hnífa­pör, disk­ar, sogrör, hrærip­inn­ar og blöðruprik sem og matarílát, drykkjarílát og boll­ar úr frauðplasti. Und­an­tekn­ing­ar eru gerðar ef vör­ur flokk­ast sem lækn­inga­tæki,“ seg­ir í frétt á vef Stjórn­ar­ráðsins.

„Sömu­leiðis er lagt til að óheim­ilt verði að af­henda end­ur­gjalds­laust einnota bolla og matarílát úr öðru plasti en frauðplasti sem ætluð eru und­ir drykki og mat­væli til neyslu, líkt og al­gengt er á skyndi­bita­stöðum. Skal gjaldið vera sýni­legt á kassa­kvitt­un.“

Niður­brjót­an­legt plast bannað

Í frum­varp­inu er sömu­leiðis lagt til skil­yrðis­laust bann við því að setja vör­ur á markað sem gerðar eru úr plasti sem er niður­brjót­an­legt með oxun eða svo­kallað oxó-plast.

„Vör­ur úr slíku plasti hafa rutt sér til rúms á markaði síðustu ár, einkum viss­ar teg­und­ir plast­poka, en eðli þess er að sundr­ast í öragn­ir sem eru skaðleg­ar heilsu og um­hverfi og er vax­andi vandi á alþjóðavísu,“ seg­ir í frétt­inni. 

Í frum­varp­inu er tekið fram að merkja skuli sér­stak­lega einnota plast­vör­ur með upp­lýs­ing­um um meðhöndl­un vör­unn­ar eft­ir notk­un og nei­kvæð áhrif vör­unn­ar ef hún ber­ist út í um­hverfið.

„Þær vör­ur sem grein­in mun taka til eru ýms­ar tíðavör­ur, blautþurrk­ur til heim­il­is– og einka­nota, ýms­ar tób­aksvör­ur og boll­ar fyr­ir drykkjar­vör­ur.“

Drykkjarílát úr plasti úr sög­unni

Sam­kvæmt frum­varp­inu verður ein­ung­is heim­ilt að setja á markað einnota drykkjarílát úr plasti sem eru með tappa eða loki úr plasti ef tapp­inn eða lokið er áfast­ur ílát­inu á meðan notk­un þess stend­ur yfir.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra ásamt ágætis magni af plastrusli.
Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son um­hverf­is­ráðherra ásamt ágæt­is magni af plastrusli. mbl.is/​Hari

„Í til­felli plast­var­anna sem frum­varpið tek­ur til eru fá­an­leg­ar á markaði staðgöngu­vör­ur sem eru marg­nota eða inni­halda ekki plast og nota má í staðinn.“

Helsta mark­mið frum­varps­ins er að minnka áhrif af notk­un plasts á um­hverfið og heilsu fólks og styðja við notk­un end­ur­not­an­legra vara. Með frum­varp­inu er inn­leidd ný Evr­ópu­til­skip­un sem er fyrst og fremst beint að ýms­um al­geng­um plast­vör­um sem finn­ast helst á strönd­um.

„Til­skip­un­inni er einnig ætlað að styðja við mynd­un hringrás­ar­hag­kerf­is og efla úr­gangs­for­varn­ir með því að styðja við notk­un sjálf­bærra og end­ur­not­an­legra vara, frem­ur en einnota vara.“

Um­sögn­um um frum­varpið er hægt að skila í sam­ráðsgátt stjórn­valda og er um­sagn­ar­frest­ur til 16. janú­ar 2020.

mbl.is