Namibísku sexmenningarnir, sem kærðir hafa verið fyrir spillingu og peningaþvætti í tengslum við Samherjaskjölin í Namibíu, munu sitja áfram í gæsluvarðhaldi fram til 20. febrúar þegar fyrirtaka verður í máli þeirra.
Dómari hæstaréttar í Windhoek komst að þeirri niðurstöðu í dag. Jafnframt kom fram að málið væri ekki talið það áríðandi að það yrði tekið á dagskrá dómsins. Þetta kemur fram á vef Namibian.
Tveir fyrrverandi ráðherrar landsins, Bernhard Esau og Sacky Shanghala auk hinna fjögurra, James Hatuikulipi, Tamson Hatuikluipi, Ricardo Gustavo og Pius Mwatelulo, hafa setið í haldi frá því fyrr í þessum mánuði.
Þeir fullyrtu að handtaka þeirra sem og gæsluvarðhaldsúrskurður væri ólögmætur.