Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, var fluttur á sjúkrahús í morgun. Frá þessu greinir miðillinn Namibian Sun, og fær staðfest frá namibísku lögreglunni. Ekki er vitað hvað amar að Esau.
Hann hefur setið í varðhaldi frá því í byrjun mánaðar eftir að hann var handtekinn grunaður um spillingu, fjársvik og peningaþvætti, í kjölfar uppljóstrana Kveiks og Stundarinnar um viðskiptahætti Samherja í Namibíu.
Auk Esau situr Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra landsins, í varðhaldi, sem og hinir svonefndu hákarlar, James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður ríkisútgerðarfélagsins Fishcor, Tamson Hatuikluipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavom, samstarfsmaður hans, og Pius Mwatelulo. Sexmenningarnir voru fyrr í mánuðinum úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 20. febrúar.