Endurheimt tonn á 2.000 krónur

Með því að fylla aftur upp í skurði sem grafnir …
Með því að fylla aftur upp í skurði sem grafnir voru til að þurrka upp mýrar má endurheimta votlendi. mbl.is/RAX

Orkuveita Reykjavíkur (OR) og Votlendissjóður undirrituðu rétt fyrir jól samning upp á 2,5 milljónir um kolefnisjöfnun með endurheimt votlendis í gegnum sjóðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Votlendissjóði.

„OR samstæðan kolefnisjafnar þannig alla sína starfsemi, bílaflota, flugferðir og annað fyrir árið 2019. Á sama tíma heldur OR áfram að vinna að markmiðum sínum um að fækka bílum sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti, draga úr flugferðum og draga úr jarðefnaeldsneyti á tækjum og tólum. Um er að ræða endurheimt á 1.250 tonnum af CO2 ígildum sem er samningur upp á 2.500.000,-“

Þessi samningur er sá fyrsti sem skapaður er eftir nýjum framlagsforsendum sem sjóðurinn tekur upp um áramótin.

„Votlendissjóður þakkar Orkuveitunni traustið en þetta er ekki í fyrsta sinn sem samstæðan gerir samning um kolefnisjöfnun í gegnum sjóðinn“, segir í tilkynningunni.

Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri OR, og Þröstur Ólafsson skelltu saman hnefum …
Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri OR, og Þröstur Ólafsson skelltu saman hnefum í tilefni samningsins.

Endurheimtu á þriðja tug jarða

„Votlendissjóður hefur breytt framlagsforsendum sínum og þar með verðlagningu kolefnisjöfnunar í gegnum sjóðinn. Helstu breytingar eru þær að sjóðurinn býður nú endurheimt tonn á 2.000,- krónur og selur staðfesta stöðvun í átta í ár stað eins árs eins og fyrra módel var byggt á.“

Stærsta breytingin á framlagsforsendum sjóðsins viðkemur landeigendum sem koma til samstarfs við sjóðinn, þegar sjóðurinn hefur nýtt þessi átta ár til að fjármagna framkvæmdirnar fá landeigendur stöðvunina til ráðstöfunar.  

„Á fyrstu sex mánuðum 2020 endurheimtir sjóðurinn á þriðja tug jarða í samvinnu við Landgræðsluna. Ný heimasíða er í vinnslu og alþjóðlegar vottanir eru í skoðun.“

mbl.is