Í Vestur-Noregi er nú hitabylgja en er það afar sjaldgæft svo snemma í janúar. Á þessum tíma er hitastig venjulega undir frostmarki. BBC greinir frá þessu.
Í dag mældist hitinn 19 gráður á Celsius í þorpinu Sunndalsøra. Er það 25 gráðum hlýrra en hitameðaltal janúarmánaða síðustu ára.
Var dagurinn í dag hlýjasti dagur Noregs í janúarmánuði síðan mælingar hófust.
Íbúar nutu veðurblíðunnar í dag en aðrir hafa áhyggjur af því að lofthitinn sé afleiðing loftslagsbreytinga. Margir íbúar Sunndalsøra fara á skíði á þessum árstíma en í dag spókuðu þeir sig á stuttermabolum.
Fyrra met Sunndalsøra í janúar er 17,4 °C. Metið sem nú var slegið er einnig hitamet vetrarmánaða, en þeir eru desember, janúar og febrúar.
Sunndalsøra er einn hlýjasti staður Noregs, en þar hafa mælst 18,3 °C í desember og 18,9 °C í febrúar. Eru það hæstu hitatölur sem mælst hafa í Noregi í þessum mánuðum.