Fylkisstjóri Nýja Suður-Wales í Ástralíu hefur lýst yfir neyðarástandi í fylkinu vegna skógareldanna sem þar brenna af miklum ofsa. Veðurspáin fyrir helgina er hörmuleg upp á eldana að gera, en búist er við miklum hita og sterkum vindi. Neyðarástandið tekur gildi í fyrramálið og mun vara í viku.
Fylkisstjórinn, Gladys Berejiklian, segir að neyðarástandið veiti yfirvöldum heimild til þess að fyrirskipa rýmingu, loka vegum og „allt annað sem við þurfum að gera sem fylki til þess að vernda íbúa og eignir“.
„Við tökum þessar ákvarðanir ekki af léttúð en við viljum líka vera viss um að við grípum til allra ráðstafana sem við getum til þess að vera undirbúin undir laugardaginn, sem gæti orðið skelfilegur dagur,“ segir Berejiklian.
Yfirvöld í fylkinu hafa varað við því að aðstæður gætu orðið jafnslæmar og þær voru á gamlársdag, en þá urðu hundruð heimila eldi að bráð.
Slökkviliðið í Nýja Suður-Wales hefur fyrirskipað ferðafólki að yfirgefa 260 kílómetra langt svæði við strönd fylkisins með hraði, en þar hefur fjöldi fólks verið í fríi yfir jólin. „Ekki vera á þessu svæði á laugardaginn,“ sagði slökkviliðið í gær.
Í frétt BBC kemur fram að þung umferð sé frá ströndinni og til stórborganna Sydney og Canberra.