Neyðarástandi lýst yfir í Nýja Suður-Wales

00:00
00:00

Fylk­is­stjóri Nýja Suður-Wales í Ástr­al­íu hef­ur lýst yfir neyðarástandi í fylk­inu vegna skógar­eld­anna sem þar brenna af mikl­um ofsa. Veður­spá­in fyr­ir helg­ina er hörmu­leg upp á eld­ana að gera, en bú­ist er við mikl­um hita og sterk­um vindi. Neyðarástandið tek­ur gildi í fyrra­málið og mun vara í viku.

Fylk­is­stjór­inn, Gla­dys Berejikli­an, seg­ir að neyðarástandið veiti yf­ir­völd­um heim­ild til þess að fyr­ir­skipa rým­ingu, loka veg­um og „allt annað sem við þurf­um að gera sem fylki til þess að vernda íbúa og eign­ir“.

„Við tök­um þess­ar ákv­arðanir ekki af léttúð en við vilj­um líka vera viss um að við gríp­um til allra ráðstaf­ana sem við get­um til þess að vera und­ir­bú­in und­ir laug­ar­dag­inn, sem gæti orðið skelfi­leg­ur dag­ur,“ seg­ir Berejikli­an.

„Ekki vera á þessu svæði á laug­ar­dag­inn“

Yf­ir­völd í fylk­inu hafa varað við því að aðstæður gætu orðið jafnslæm­ar og þær voru á gaml­árs­dag, en þá urðu hundruð heim­ila eldi að bráð.

Húsarústir utan við bæinn Batemans Bay í Nýja Suður-Wales.
Hús­a­rúst­ir utan við bæ­inn Batem­ans Bay í Nýja Suður-Wales. AFP

Slökkviliðið í Nýja Suður-Wales hef­ur fyr­ir­skipað ferðafólki að yf­ir­gefa 260 kíló­metra langt svæði við strönd fylk­is­ins með hraði, en þar hef­ur fjöldi fólks verið í fríi yfir jól­in. „Ekki vera á þessu svæði á laug­ar­dag­inn,“ sagði slökkviliðið í gær.

Í frétt BBC kem­ur fram að þung um­ferð sé frá strönd­inni og til stór­borg­anna Syd­ney og Can­berra.

Veðurspáin fyrir helgina er afar slæm upp á eldana að …
Veður­spá­in fyr­ir helg­ina er afar slæm upp á eld­ana að gera. AFP
mbl.is