Pompeo segir að Bandaríkin vilji draga úr spennu

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að bandarísk stjórnvöld einsetji sér að koma í veg fyrir að átök við Íran stigmagnist, en Íranar hafa heitið hefndaraðgerðum eftir að Qasem Soleimani, herforingi sérsveitar Íranshers og einn áhrifamesti maðurinn í íranska stjórnkerfinu, var drepinn í drónaárás Bandaríkjahers í nótt.

Pompeo segir á Twitter að hann hafi rætt árásina við Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, og Yang Jiechi sem situr í framkvæmdastjórn kínverska kommúnistaflokksins.

Pompeo segist hafa komið því til skila til Jiechi að Bandaríkjamenn ætluðu sér að reyna draga úr spennu, nú þegar búið væri að drepa Soleimani. Í tístum sínum um símtöl við þessa stjórnmálamenn segir hann að drápið á íranska herforingjanum hafi verið „varnaraðgerð“.



Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP
mbl.is