Unnið er að tveimur úttektum

Deilt er um verð á makríl.
Deilt er um verð á makríl. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Atvinnuvegaráðuneytið er að kanna ástæður fyrir mismunandi verði á makríl eftir ríkjum. Atvinnuveganefnd Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum og afstöðu fimm ráðuneyta til áhrifa aukins útflutnings á óunnum fiski og þar er jafnframt óskað eftir viðbrögðum við upplýsingum um verðmismun á makríl.

Sjómannafélag Íslands og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur sendu í gær frá sér ályktanir aðalfunda félaganna þar sem þess er krafist að fram fari ítarleg rannsókn á verðmyndun makríls á árunum 2012 til 2018. Vísað er til athugunar Verðlagsstofu skiptaverðs á vigtar- og ráðstöfunarskýrslum útgerða sem reka landvinnslu og bræðslu. Þar komi fram að verðlag sé miklum mun hærra í Noregi, þar sem það miðist við heimsmarkaðsverð, en á Íslandi. Hráefnisverð á makríl hafi verið að meðaltali 227% hærra í Noregi en á Íslandi á þessum árum.

Fullyrt er að tekjur útgerðarfyrirtækja gætu verið tvöfalt hærri ef miðað væri við heimsmarkaðsverð. Rannsakað verði hvort útgerðarmenn séu kjánar sem ekki leiti eftir besta verði og verði þannig árlega af tugmilljarða króna tekjum af makríl. Spurt er hvort tilgangurinn sé að lækka laun sjómanna og komast hjá skattgreiðslum.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra nauðsynlegt og hollt fyrir alla hlutaðeigandi að fram fari athugun á þeim mun sem er á verði uppsjávarafla eftir ríkjum, þó ekki væri til annars en að eyða tortryggni og óvissu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: