Bílar fóru út af við Reykjanesbrautina í dag og var Björgunarsveitin Skyggnir í Vogunum á Reykjanesi m.a. kölluð út vegna þess. Sveitin aðstoðaði einnig við vegalokanir og við að festa flotbryggju sem losnað hafði.
„Það losnaði aðeins upp og við settum hana bara í bönd og þar með var verkefninu lokið. Hún er óskemmd, það gáfu sig bara boltar í henni,“ segir Kristinn Björgvinsson formaður Skyggnis.
Reykjanesbrautinni var lokað um tíma í dag og voru björgunarsveitarmenn á meðal þeirra sem aðstoðuðu við lokun hennar. Hún hefur nú verið opnuð aftur.
Snemma í morgun, áður en Reykjanesbrautinni var lokað, var færð þar virkilega slæm og blint á köflum. Nokkrir bílar fóru út af og aðstoðuðu björgunarsveitarmenn fólk sem var í vandræðum vegna þess.
Veður hefur verið vont í dag og ýmist gular eða appelsínugular viðvaranir verið í gildi. Nú hefur þó lægt á Suðurlandi og stórum hluta Vesturlands en gular viðvaranir eru enn í gildi fyrir Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi og Austfirði.
Þá er enn í gildi appelsínugul viðvörun fyrir miðhálendið en í morgun sagði veðurfræðingur ástandið þar „glórulaust“.
Viðvörunum fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Breiðafjörð, Faxaflóa og Suðausturland hefur verið aflétt.