Björguðu ferðamönnum af Nesjavallaleið

Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Björgunarsveitarmenn björguðu tveimur erlendum ferðamönnum sem höfðu fest bifreið sína í snjó á Nesjavallaleið á þriðja tímanum í nótt.

Björgunarsveitir hafa annars ekki verið kallaðar út enn vegna veðurs að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Björgunarsveitarmenn hafa hins vegar sinnt lokunum vega sem lokað hefur verið vegna veðurs og færðar.

Þá eru hópar björgunarsveitarmanna tilbúnir ef á þarf að halda.

Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg
mbl.is