Flugferðum aflýst, flýtt eða seinkað

Öllu flugi til og frá Ísafirði hefur verið aflýst, öðrum flugferðum innanlands hefur verið seinkað vegna veðurs. Það hefur einnig raskað flugi til og frá landinu í dag. 

„Veðrið hefur haft þau áhrif að ferðum til og frá landinu í morgun var flýtt og á móti er búið að seinka komum og brottförum eftir hádegi,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. 

Aðgerðirnar voru fyrirbyggjandi og gekk vel að fá farþega til að mæta fyrr, að sögn Guðjóns.

„Í raun og veru var undirbúningur fyrir þetta hafinn í gær. Bæði hjá okkur og flugfélögunum og þjónustuaðilum. Ferðum var flýtt í morgun þannig að innritunarborð og annað slíkt voru opnuð snemma, mér skilst að það hafi gengið mjög vel fyrir sig og upplýsingagjöf til farþega var þess eðlis að þeir voru mættir fyrr út á völl.“

Guðjón segir að líklega verði flugferðir á morgun á áætlun, ef marka má veðurspár sem segja til um að veðrið gangi nokkuð hratt yfir. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is