Magnús Þórðarson, eigandi húss sem skemmdist þegar byggingakrani féll á það, var rétt búinn að ljúka samtali við verktakann sem kranann á þegar hann skall á húsinu.
„Ég var bara í bílnum mínum á leið upp að húsinu þegar ég sé að kraninn gengur rosalega til í vindinum. Ég ákvað þess vegna að hringja í verktakann sem er hérna hinum megin við götuna og læt hann vita. Um leið og ég skelli á þá hrynur kraninn við hliðina á mér og fer beint á húsið hjá mér,“ segir Magnús.
Aðspurður segir hann að sannarlega hefði getað orðið tjón á fólki ef einhver hefði verið þarna á röngum stað á röngum tíma.
Þak hússins skemmdist sem og rúða í bíl Magnúsar. „Það er ein rúða ónýt í bílnum og þakið er svolítið skemmt, við erum að reyna að meta það núna. Við erum búin að opna það og erum að vinna í að laga það til þess að koma í veg fyrir leka,“ segir Magnús.
Nú hefur kraninn verið fjarlægður en Magnús situr eftir með skemmt þak og ónýta rúðu.
Atvikið átti sér stað í Urriðaholti í Garðabæ rétt fyrir klukkan tólf í dag. Bæði Vinnueftirlitið og verktakinn sem kranann á voru kölluð á svæðið vegna atviksins.