Vegagerðin hefur lokað veginum um Öxnadalsheiði og Þverárfjall vegna veðurs og færðar en áður hafði hún varað við því að til slíkra lokana gæti komið með skömmum fyrirvara.
Lokanir á vegum eru að færast norðar samhliða því sem óveðrið sem gengur yfir landið færist sömu leið. Áður hafði í raun öllum leiðum frá höfuðborgarsvæðinu verið lokað en Reykjanesbrautin hefur verið opnuð á nýjan leik.
Þar er um að ræða Hellisheiði, Þrengslin, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði og Kjalarnes. Enn fremur eru Hvalfjarðargöngin lokuð vegna lokunar Kjalarness.
Þá eru Holtavörðuheiðin og Brattabrekka lokuð á Vesturlandi, Kleifaheiði, Miklidalur og Hálfdán á Vestfjörðum og Mývatnsöræfi á Norðausturlandi.