Útlit fyrir skaplegra veður á morgun

Búist er við því að áfram verði slydduél eða él …
Búist er við því að áfram verði slydduél eða él víða. mbl.is/Eggert

Veðrið verður heldur skaplegra á morgun en það var í dag. Suðvestanátt verður ríkjandi og vindhraði á bilinu 10-15 m/s með deginum, en heldur hvassari norðvestantil á landinu. Búist er við því að áfram verði slydduél eða él víða, en bjart verður með köflum um landið norðaustanvert.

Annað kvöld verður hægari suðlæg átt og úrkomulítið, vindur á bilinu 8-13 m/s. Sunnanlands er þó búist við að vindur snúist í austanátt um miðnætti og við suðurströndina er búist við rigningu eða slyddu. Hiti verður á bilinu 0-5 stig á morgun, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:
Suðaustan 10-15 m/s, rigning eða slydda framan af degi og hiti 0 til 5 stig. Snýst í vestan 15-23, hvassast suðaustantil, með éljagangi og kólnandi veðri, en léttir til á austanverðu landinu.

Á þriðjudag:
Austan og suðaustan 10-18 m/s og snjókoma, en síðar rigning framan af degi og hiti um og yfir frostmarki, en snýst síðan í vestan 15-23 með éljagangi og frystir.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Hvöss vestan- og suðvestanátt, vægt frost og gengur á með éljum, en lengst af léttskýjað norðaustantil á landinu.

Á föstudag:
Ákveðin suðlæg átt með rigningu, einkum sunnantil, og hlýnar í veðri.

Á laugardag:
Útlit fyrir fremur hæga vestanátt, vægt frost, og él, en þurrt norðan- og austanlands.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is