Forseti Írans: „Aldrei hóta írönsku þjóðinni“

Hassan Rouhani, forseti Írans, svarar Donald Trump Bandaríkjaforseta fullum hálsi.
Hassan Rouhani, forseti Írans, svarar Donald Trump Bandaríkjaforseta fullum hálsi. AFP

Íranski forsetinn, Hassan Rouhani, hefur varað Donald Trump Bandaríkjaforseta við því að hafa í hótunum við írönsku þjóðina eftir að sá síðarnefndi fór hamförum á samfélagsmiðlum í gær þar sem hann sagði Bandaríkjamenn reiðubúna að ráðast á 52 skotmörk í Íran með skömmum fyrirvara.

Stjórnvöld í Íran voru fljót að heita grimmilegum hefndum eftir að bandaríski herinn drap íranska herforingjann Qa­sem So­leimani með loftárás aðfaranótt föstudags.

Þjóðaröryggisráð Írans fundaði strax daginn eftir árásina og viðstaddur fundinn var æðsti klerkur Íran, Ali Kamenei, en hann situr að jafnaði ekki fundi ráðsins. Eftir fundinn sendu stjórnvöld í Íran frá sér yfirlýsingu þar sem hefndaraðgerðum fyrir „stærsta glappaskot Bandaríkjanna í Vestur-Asíu“ var lofað.

Í kjölfarið tísti Trump því að Bandaríkjaher væri reiðubúinn að ráðast á 52 skotmörk í Íran með skömmum fyrirvara komi til þess að írönsk stjórnvöld ráðist gegn bandarískum hagsmunum. Talan 52 vísar til þess fjölda bandarískra gísla sem voru teknir til fanga í bandaríska sendiráðinu í Teheran, höfuðborg Írans, árið 1979.

Bendir Trump á að hafa töluna 290 í huga

Nú hefur forseti Írans svarað Trump fullum hálsi. „Þeir sem vísa til tölunnar 52 ættu einnig að hafa töluna 290 í huga. #IR655 Aldrei hóta írönsku þjóðinni,“ tísti Rouhani og vísaði til þeirra 290 sem létu lífið í júlí árið 1988 þegar bandarískt herskip skaut niður farþegavél Iran Air 655 yfir Persaflóa.

mbl.is