Spá 30-35 m/s síðdegis

Mjög hvasst verður í Mýrdalnum þegar líður á daginn.
Mjög hvasst verður í Mýrdalnum þegar líður á daginn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Gular viðvaranir hafa verið gefnar út á Austfjörðum og Suðausturlandi í dag og tekur viðvörunin gildi á Suðausturlandi klukkan 13. Þar er spáð allt að 30-35 metrum á sekúndum og eru ökumenn beðnir um að fara varlega.

„Lægð er suður af landinu og gengur hún yfir landið í dag. Nú þegar er úrkoma víða á landinu, ýmist rigning eða snjókoma. Vestan til á landinu er norðlæg átt, 8-15 m/s, en annars staðar er austlæg átt, yfirleitt 5-10 m/s.

Eftir hádegi verður lægðin komin norður fyrir landið og vindur orðinn vestanstæður, 10-15 m/s og éljagangur, en styttir upp austan til og gengur í vestan 15-23 m/s á Suðausturlandi og Austfjörðum.

Lægir í kvöld þegar að vindur snýr sér til austurs og næsta lægð tekur að stýra veðrinu á landinu. Hvöss austanátt á morgun með rigningu eða slyddu en snýst svo í hvassa suðvestanátt síðdegis með talsverðum éljagangi og kólnandi veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Á Austfjörðum tekur gul viðvörun gildi klukkan 17 og gildir til 22:30. „Vestan 15-23 m/s, með staðbundnum vindstrengjum að 30-35 m/s. Ökumenn fari varlega og íbúar tryggi lausamuni utandyra.“

Á Suðausturlandi verður viðvörunin í gildi frá 13 til 20 í dag. „Vestan 15-23 m/s, hvassast í Mýrdal og Öræfum með vindhviður 30-35m/s. Ökumenn fari varlega.“

Veðurspá fyrir næstu daga

Norðlæg átt 8-15 m/s og slydda eða snjókoma, en rigning á Suðurlandi og hægari breytileg átt á austanverðu landinu. Vaxandi vestanátt síðdegis, 13-23 m/s undir kvöld og él, hvassast suðaustan til, en úrkomulítið austanlands.

Fremur hæg suðlæg átt og þurrt í kvöld. Gengur í austan 10-18 m/s með slyddu eða rigningu í nótt, og norðaustan 18-23 m/s með slyddu eða snjókomu á Vestfjörðum eftir hádegi. Hiti kringum frostmark, en að 6 stigum syðst. Snýst í suðvestan 15-23 síðdegis á morgun með éljagangi og kólnar, en léttir til eystra.

Á þriðjudag:
Austan 10-18 m/s og slydda eða rigning, en norðaustan 18-23 m/s og snjókoma á Vestfjörðum. Hiti kringum frostmark, en að 6 stigum syðst. Snýst í vestan 15-23 síðdegis með éljagangi og frystir, en léttir til eystra.

Á miðvikudag:
Vestan 15-23 m/s og gengur á með éljum, en lengst af léttskýjað eystra. Frost 0 til 5 stig.

Á fimmtudag:
Suðvestanátt 15-23 m/s og él, en heldur hægari og léttskýjað austan til á landinu. Frost 2 til 8 stig.

Á föstudag:
Ákveðin suðlæg átt með rigningu, einkum sunnan til og hlýnandi veður.

Á laugardag:
Vestlæg átt og éljagangur, en úrkomulítið um landið austanvert. Kólnar í veðri.

Á sunnudag:
Norðlæg eða breytileg átt, úrkomulítið og kalt í veðri.

Veðrið á mbl.is

mbl.is