Í drögum að reglugerð um rafræna aflaskráningu, sem kynnt hefur verið á samráðsgátt stjórnvalda, segir að allar skráningar verði rafrænar, annaðhvort í rafrænni afladagbók eða með smáforriti.
Í kynningu á verkefninu segir að verið sé að vinna að þróun snjallsímaforrits til aflaskráningar. Stefnt sé að því að forritið verði tilbúið í byrjun árs 2020 og að öll skip, stór og smá, skrái afla með rafrænum hætti frá og með 1. september 2020. Afladagbók á pappírsformi muni því heyra sögunni til.
Meðal helstu breytinga sem reglugerðardrögin fela í sér er að upplýsingar í afladagbók munu ekki lengur njóta leyndar. Rökin fyrir því séu þau að nú sjáist á netinu hvar skip eru við veiðar og því sé núverandi leynd orðin ástæðulaus, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.