184 farþegar Norwegian sátu fastir

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls sátu 184 farþegar Norwegian fastir í um tvær klukkustundir í flugvél á Keflavíkurflugvelli eftir að hafa komið frá Tenerife.

Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, myndaðist um klukkustundarlangur gluggi seinnipartinn í dag þar sem landgöngubrýr voru teknar í notkun, þegar veður leyfði, og gafst þá svigrúm til að hleypa fólki úr vélinni. 

Skömmu síðar var farþegum, sem höfðu beðið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir því að komast í sömu vél, hleypt um borð. Áætluð brottför vélarinnar til Tenerife er klukkan 20 í kvöld

Flugrekendur nýta sér veðurupplýsingar frá Veðurstofu Íslands, auk þess sem Isavia veitir þeim upplýsingar um áhrif veðursins á rekstur fyrirtækisins. Ákvarðanir eru í framhaldinu teknar á grundvelli upplýsinganna og ákvað Norwegian að aflýsa ekki sínum flugferðum.

mbl.is