Bjarga fólki úr blindbyl á Holtavörðuheiði

Margir sitja fastir í bílum á Holtavörðuheiðinni og vinna björgunarsveitir …
Margir sitja fastir í bílum á Holtavörðuheiðinni og vinna björgunarsveitir að því að koma bílunum og fólkinu niður. mbl.is/Sigurður Ægisson

Björgunarsveitir standa í ströngu á Holtavörðuheiðinni þessa stundina þar sem stórhríð gengur yfir og hefur stöðvað umferð algjörlega. Að minnsta kosti tíu bílar eru uppi á heiði og verið að reyna koma þeim niður en líklega þarf að skilja einhverja eftir.

Gunnar Örn Jakobsson, í björgunarsveitinni Húnum, er í aðgerðastjórn á svæðinu og segir að hátt í 20 manns taki nú þátt í aðgerðunum. Hann segir að björgunarsveitamenn á fimm stórum jeppum séu á leiðinni niður heiðina með fólk sem sat fast í bílum sínum.

„Það er blindbylur efst í heiðinni og þegar okkar menn fara þarna fyrst upp eru alveg 30 metrar á sekúndu,“ segir Gunnar Örn og bætir við:

„Það er verið að koma fólkinu niður en það þurfti að skilja eitthvað af bílunum eftir. Það voru tíu bílar fastir og við vitum ekki hversu mörgum við komum niður en það þarf alla vega að skilja fjóra eftir.“

Aftakaveður um allt land

Gul viðvörun er í gildi um allt land og hafa björgunarsveitir haft mikið að gera. Hellisheiðinni var lokað skömmu fyrir klukkan sex og þar þurfti að koma bílstjóra  til bjargar sem hafði lent í vanda. Þá hafa bílstjórar lent í vandræðum í Vatnsskarði og á fleiri stöðum.

Lokanir eru í gildi á Krýsuvíkurvegi, á Mosfellsheiði og Hellisheiði. Þá er lokað í Þrengslunum, Bröttubrekku, Holtavörðuheiði, Vatnsskarði, Þverárfjalli, Öxnadalsheiði og Lyngdalsheiði. Einnig er ófært á Útnesvegi og milli Hellissands og Grundarfjarðar.

Upplýsingar um lokanir vega má finna á vef Vegagerðarinnar.

Í athugasemdum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að verði hríð norðvestan til á landinu fram á kvöld en víða suðvestanhvassviðri eða stormur og él í öðrum landshlutum.

Fólk er hvatt til þess að skoða vel athugasemdir með gulum viðvörunum sem má finna á vef Veðurstofunnar.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is