Sneru við vegna veðurs

mbl.is/Sigurður Bogi

Víkurskarð er ófært og verður það til morguns. Starfsmenn Vegagerðarinnar sem ætluðu að moka veginn í morgun sneru við vegna veðurs. Þæfingur og stórhríð er á Öxnadalsheiðinni og lítið sem ekkert skyggni þar samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Strætó mun ekki keyra til Akureyrar í dag vegna veðurs og tvísýnt er um ferðir strætó á Suðurnes sem og Suðurland vegna versnandi veðurs. Gular viðvaranir hafa tekið gildi á hluta landsins en síðar í dag verða gular viðvaranir í gildi um allt land. 

Á Suðvesturlandi er víða snjóþekja eða hálka og hvasst. Snjóþekja og skafrenningur á Hellisheiði og Þrengslum. Á Vesturlandi er víða snjór og hálka. Hvasst er á Snæfellsnesi, undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi. Víðast hvar hálka og einhver skafrenningur á Vestfjörðum. Þæfingsfærð er á Þröskuldum, Mikladal og á Hálfdán en þungfært á Klettshálsi.

Á Norður- og Norðausturlandi er víðast snjór og hálka. Þar snjóar núna og þæfingur er á Mývatnsöræfum en þungfært er á Hólasandi. Talsvert hefur borið á hreindýrum við vegi á Austur- og Suðausturlandi. Vegfarendur eru hvattir til að fara varlega, sérstaklega eftir að dimmir þar sem dýrin sjást illa í myrkrinu.

Hlýtt er á Suðausturlandi og því er varað við hálku. Snjóþekja og snjókoma er austan við Höfn.

Á Suðurlandi er hvasst, snjókoma eða hálka. Greiðfært er á flestum leiðum austan Þjórsár en snjór á Reynisfjalli.

Herjólfur siglir frá Þorlákshöfn í dag og fer strætó því ekki í Landeyjahöfn.

mbl.is