Flutningaskipið sem slitnaði frá bryggju í Hafnarfirði er komið aftur að bryggju samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Aðgerðum er því lokið í Hafnarfjarðarhöfn.
Dráttarbátarnir Magni og Hamar drógu skipið að bryggju. Varðskipið Týr sigldi á móti dráttarbátnum Magna sem kom frá Reykjavík og skýldi vegna veðurs.
Um er að ræða fjögur þúsund tonna erlent flutningaskip. Skipstjóri skipsins hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar klukkan 5:30 og sagði skipið vera að reka upp í olíugarðinn. Varðskipið Týr var þegar í stað kallað út sem og dráttarbátar frá Hafnarfirði og Reykjavík.