Veðrið á landinu „sleppur þokkalega í kvöld“ að mati veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands en í nótt byrjar aftur á móti að hvessa aftur á Vestfjörðum.
Eiríkur Örn Jóhannesson veðurfræðingur segir að svolítill strengur sé enn á Norðausturlandi en þar eigi að lægja í kvöld.
Í fyrramálið og fram eftir degi verður veðrið á landinu verst á Breiðafirði og Vestfjörðum. Þar hefur einmitt verið gefin út appelsínugul viðvörun vegna morgundagsins. Vindhraðinn getur farið upp í 28 metra á sekúndu.
„Vestan 10-18 m/s og él. Suðvestan hvassviðri eða stormur, 18-25 m/s, og talsverður éljagangur á morgun, en hægari og bjart veður um landið austanvert. Frost 0 til 7 stig,“ segir í færslu Veðurstofunnar fyrr í dag.
Að sögn Eiríks fylgir gríðarleg snjósöfnun og skafrenningur veðrinu á Vestfjörðum og fylgist snjóflóðahópurinn á Veðurstofunni vel með gangi mála á ofanflóðasíðu sinni á Vedur.is.
Hægari vindur verður um landið austanvert og á Norðausturlandi verður bjartviðri á morgun, að sögn Eiríks Arnar. Veðrið gengur svo niður undir kvöldið.
Gul viðvörun hefur verið gefin út á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Ströndum, Norðurlandi vestra, Austjörðum og á hálendinu á morgun.