Ekkert flug og enginn strætó

mbl.is/Eggert

Ekkert hefur verið hægt að fljúga til og frá landinu í morgun og allt innanlandsflug liggur niðri. Eins falla allar morgunferðir Strætó á landsbyggðinni niður vegna veðurs og ófærðar.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er búið að opna Þrengslin en enn er vonskuveður um mestallt land og vegir víða ýmist ófærir eða lokaðir. Veðurstofan gerir ráð fyrir að það lægi um tíma síðdegis og í kvöld, fyrst sunnan til.

Enn er hvasst á Suðvesturlandi og lokað bæði á Hellisheiði og Mosfellsheiði. Á Norðurlandi er Siglufjarðarvegur lokaður utan Fljóta vegna snjóflóðahættu. Ólafsfjarðarmúlinn er einnig lokaður vegna snjóflóðahættu.

Samkvæmt upplýsingum frá Strætó liggja allar morgunferðir á landsbyggðinni niðri vegna ófærðar og veðurs í dag. Leið 23, sem ekur um Álftanes, hefur einnig fellt niður allar ferðir í morgun. Stjórnstöð Strætó fylgist náið með stöðunni og tilkynnir um frávik sem kunna að verða á akstri og er hægt að nálgast þær hér.

Röskun hefur verið á flugi til og frá Keflavíkurflugvelli frá því um hádegi í gær og verður fram eftir degi í dag vegna veðurs. Von er á fyrstu flugvélinni til landsins klukkan 10:38 en um er að ræða flug SAS frá Kaupmannahöfn. Fyrsta vélin sem fer í loftið héðan fer til Manchester klukkan 12:45.

Isavia, sem rekur Keflavíkurflugvöll, vinnur eftir reglum um aðgerðir og viðbrögð þegar óveðursástand skapast á flugvellinum. Þessar reglur eru grundvallaðar á því að tryggja öryggi farþega og er það ávallt sett í fyrsta sæti í þeim aðstæðum. Þegar slæmar veðuraðstæður verða á Keflavíkurflugvelli er í ákveðnum tilfellum nauðsynlegt að takmarka notkun á landgöngubrúm þannig að hægt sé að forðast slys á fólki og því til viðbótar koma í veg fyrir skemmdir á tækjum og búnaði.

Ef vindhviður fara yfir 50 hnúta (tæpir 26 m/s) eru allar landgöngubrýr teknar úr notkun af öryggisástæðum þ.e. til að tryggja öryggi farþega og koma í veg fyrir slys á fólki.

Afgreiðsla loftfars er á ábyrgð flugrekanda og flugafgreiðsluaðila og er notkun stigabíla á hendi þessara aðila Lendi loftfar við þær aðstæður að ekki er heimilt að nota landgöngubrýr skal flugvél bíða á vellinum þar til vindstyrkur fer niður fyrir viðmiðunarmörk, segir á vef Keflavíkurflugvallar.

Alls sátu 184 farþegar Norweg­i­an fast­ir í um tvær klukku­stund­ir í flug­vél á Kefla­vík­ur­flug­velli eft­ir að hafa komið frá Teneri­fe í gær en Norwegian Airlines var eina flugfélagið sem ekki aflýsti flugi í gær.

Flugfélagið Ernir áætlar að fljúga á Bíldudal klukkan 11:30 en allt flug Flugfélags Íslands er á áætlun, næst verður athugað með flug klukkan 13:15.

mbl.is