Stórt flutningaskip losnaði frá bryggju í Hafnarfjarðarhöfn nú á sjötta tímanum og er unnið að því að koma því til aðstoðar samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Snarvitlaust veður er og vindáttin afar óhagstæð.
Um er að ræða fjögur þúsund tonna erlent flutningaskip. Skipstjóri skipsins hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar klukkan 5:30 og sagði skipið vera að reka upp í olíugarðinn. Varðskipið Týr var þegar í stað kallað út sem og dráttarbátar frá Hafnarfirði og Reykjavík. Þá hafa björgunarsveitir sömuleiðis verið kallaðar út. Unnið er að því að koma skipinu að bryggju á ný en stutt er í að Týr og dráttarbáturinn Magni komi á staðinn.