„Þetta auðvitað snýst um það hvernig þau tóg eru sem eru notuð. Þau hefðu mátt vera sterkari,“ segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri í Hafnarfjarðarhöfn, um mögulegar ástæður þess að flutningaskipið Francisca losnaði frá höfn í nótt. Nú verði málið rannsakað.
Mikil mildi var að ekki fór verr þegar skipið rak stjórnlaust upp í landfyllingu við höfnina snemma í morgun. Byrjað var að falla frá þegar hafnarstarfsmönnum, lögreglu, Landhelgisgæslunni og björgunarsveitarfólki barst aðstoð frá Reykjavík þegar dráttarbáturinn Magni kom á svæðið og þá tókst loks að tryggja skipið við höfnina. Lúðvík segir ekki hefði mátt tæpara standa að fá Magna á svæðið.
Þegar ljóst var í hvernig veður stefndi í gærkvöldi var ákveðið að færa Franciscu úr Straumsvíkurhöfn þangað sem skipið siglir reglulega á vegum Thorship. Vestan- og norðvestanáttir eru hvað erfiðastar að eiga við bæði í Straumsvík og Hafnarfjarðarhöfn og þakkar Lúðvík fyrir að skipið hafi ekki verið í Straumsvík í ljósi atburðanna.
Í myndskeiðinu er rætt við Lúðvík í stjórnstöð björgunarsveitanna sem sett var upp við höfnina snemma í morgun.
Stefnt er að því að kafa niður með skipinu í dag til að kanna hvort einhverjar skemmdir hafi orðið á því.