Lögreglan fer yfir gögn málsins á morgun

Um 300 manns tóku þátt í að bjarga ferðamönnum við …
Um 300 manns tóku þátt í að bjarga ferðamönnum við rætur Langjökuls í gær. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á hrakningum 39 ferðamanna á vegum Mountaineers of Iceland sem bjargað var við rætur Langjökuls í gærkvöldi mun halda áfram á morgun og verður þá farið yfir ýmis gögn í tengslum við málið. Þar á meðal verða skoðuð gögn frá Veðurstofu Íslands og auglýsingar ferðaþjónustufyrirtækis vegna vélsleðaferðarinnar.

Þetta segir Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurlandi, en hann bætir við að þeir lögregluþjónar sem rannsökuðu málið í nótt hafi fengið frí í dag. 

Segir hann að með því að skoða gögnin vilji lögreglan meðal annars komast að því að hverju viðskiptavinirnir hafi gengið. Einnig vill hún skoða stöðuna betur áður en farið verður í að taka formlegar skýrslur af forsvarsmönnum ferðaþjónustufyrirtækisins. Það verði gert í kjölfarið.

Elís sagði frá því í samtali við mbl.is fyrr í dag að lögregla hafi þegar fengið framburð erlendu ferðamannanna auk þess sem rætt var við starfsfólk ferðaþjónustufyrirtækisins. Hann segir að það hafi verið „aðalstressið“ enda hafi margir ferðamennirnir þurft að fara úr landi. 

„Nú þurfum við bara að bera saman hvað þau voru að segja og ná heildarmynd á þetta. Við höfum öll gögnin í hendinni og þurfum bara að vinna úr þessu,“ segir Elís.

mbl.is