Mikill skafrenningur og ekkert skyggni

mbl.is/Kristinn Magnússon

Vegagerðin er nú búin að loka veginum frá Lónsbakka við Akureyri til Dalvíkur en þar er mikill skafrenningur og ekkert skyggni. Einnig er lokað frá Dalvík og til Ólafsfjarðar en snjóflóð féll þar á veginn í morgun. Lokað á utanverðum Tröllaskaga vegna snjóflóðahættu. Einnig er lokað á Þverárfjalli, Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. Víða er þæfingsfærð og slæmt skyggni, segir á vef Vegagerðarinnar en á einhverjum stöðum hefur fólk skilið bíla sína eftir í vegkanti.

Siglufjarðarvegur er lokaður utan Fljóta vegna snjóflóðahættu og hið sama á við um Ólafsfjarðarmúla. Ófært í Ljósavatnsskarði og eins yfir Mývatns- og Möðrudalsöræfi en vegir eru opnir með norðausturströndinni, segir á vef Vegagerðarinnar.

Að sögn veðurfræðings Vegagerðarinnar verður vindur í hámarki norðaustan- og austanlands allt fram undir kvöld. Varað er við hviðum allt að 40 m/s við Eyjafjörð til Dalvíkur, í Ljósavatnsskarði eins á Héraði og á Austfjörðum, varasamt þar sem hált er eða snjór á flestum vegum.

Lögreglan á Norðurlandi vestra mælist til þess að fólk sé ekki á ferðinni að óþörfu á svæðinu þar sem færð er tekin að spillast og skyggni lítið sem ekkert bæði innan og utan þéttbýlis.

Þá er einnig stórhríð nánast í öllu umdæminu og ekkert ferðaveður enda víða veglokanir eins og sakir standa og lögreglan á Norðurlandi eystra tekur í svipaðan streng.

Búið er að opna bæði um Hellisheiði og Þrengsli. Enn er þó hvasst á svæðinu og Mosfellsheiði er enn þá lokuð.

Á Vesturlandi er Holtavörðuheiði lokuð sem og Brattabrekka. Ófært er um Svínadal. Flestir vegir á Snæfellsnesi eru ýmist ófærir eða lokaðir.

Á Vestfjörðum er vonskuveður og slæm færð. Fjallvegir ófærir eða lokaðir og víða þæfingur eða þungfært á láglendi. Súðavíkurhlíð er lokuð.

Á Austurlandi er víða hvasst en ekki ófærð á vegum. Á Suðurlandi eru Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði lokaðar og eins vegir í kringum Þingvallavatn. Víða er enn hvasst.

mbl.is