Veðrið er í aðalhlutverki

mbl.is/Sigurður Bogi

Veðrið er í aðalhlutverki á landinu okkar þessa dagana og hver lægðin á fætur annarri skellur á, segir í Facebook-færslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu en appelsínugular viðvaranir eru á Vestfjörðum og við Breiðafjörðinn. Þar eru nánast allar leiðir ófærar.

Á Snæfellsnesi eru flestar leiðir ófærar eða þungfærar. Hálka eða snjóþekja og sums staðar þæfingur og þó nokkur snjókoma víða. Ófært er á Laxárdalsheiði. Á Vatnaleið er stórhríð og aðeins fært stórum 4x4 bílum. Brattabrekka er lokuð og eins er Holtavörðuheiðin lokuð.

Hálka og éljagangur er á Hellisheiði og í Þrengslum. Hálkublettir og éljagangur á Reykjanesbraut. Víða snjóþekja eða hálka á Suðvesturlandi.

Flestar lengri leiðir á norðanverðum Vestfjörðum eru ófærar. Vonskuveður er enn á sunnanverðum Vestfjörðum og ófært á Kleifaheiði og Klettsháls. Snjóflóð lokar veginum í Súgandafirði og Miklidalur er lokaður sem og Hálfdán. Súðavíkurhlíð er lokuð vegna snjóflóðahættu og veðurs.

Þæfingur og éljagangur er á flestum leiðum á Norðurlandi og vegurinn um Vatnsskarð er lokaður sem og Þverárfjall. Öxnadalsheiði er lokuð. Siglufjarðarvegur er lokaður utan Fljóta vegna snjóflóðahættu en Ólafsfjarðarmúli er opinn en óvissustig vegna snjóflóðahættu. Snjóþekja eða hálka og éljagangur á flestum leiðum á Norðausturlandi. Þæfingur og skafrenningur er á Hófaskarði og Hálsum.

mbl.is